Slökkviliðsmenn sinna forvörnum og útkallsþjónustu í þeim tilgangi að bjarga lífi, vinna gegn afleiðingum umhverfisslysa og bjarga eignum. Þannig gegna slökkviliðsmenn margþættu hlutverki við almenning, fyrirtæki og stofnanir á hverju starfssvæði. Slökkviliðsmaður er löggilt starfsheiti.

 Í starfi slökkviliðsmanns gætirðu þurft að rjúfa þök, opna loft og veggi þar sem glóð getur leynst, og standa vörð eftir að eldur hefur verið slökktur. Slökkviliðsmenn eiga talsvert samstarf við aðrar stéttir svo sem heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, björgunarsveitir, landhelgisgæslu og almannavarnir.

Helstu verkefni

- ráða niðurlögum elds og bjarga fólki og búfé úr bruna
- sjúkraflutningar
- forvarnir og eldvarnaeftirlit
- viðbrögð við mengunaróhöppum
- almannavarnir
- verðmætabjörgun
- björgun fólks úr sjó og vötnum
- björgun fólks utan alfaraleiða
- tilfallandi aðstoð við almenning

Hæfnikröfur

Slökkviliðsmenn þurfa að standast strangar kröfur um líkamsþjálfun og gangast reglulega undir þrekpróf. Einnig er ætlast til að slökkviliðsmenn ljúki margskonar námskeiðum um það sem að starfinu snýr svo sem yfirtendrun, reykköfun, meðferð eiturefna, skipulag á vettvangi og notkun hitamyndavéla. Auk þess þurfa löggiltir slökkviliðsmenn að hafa lokið námskeiði um vinnuvélar.
Slökkviliðsmenn vinna með margvíslegan búnað tengdan slysahjálp, fjarskiptum og reykköfun. Í starfinu eru meðal annars notaðir dælu-, körfu- og stigabílar, handslökkvitæki, slöngur og froðubúnaður.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Námið

Mannvirkjastofnun starfrækir Brunamálaskóla sem annast menntun, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna. Hvort tveggja er um að ræða fjarnám og hefðbundna kennslu sem felst einkum í námskeiðum sem haldin eru víða um land.

Námið skiptist í eftirfarandi þætti:
Nám atvinnuslökkviliðsmanna
Nám hlutastarfandi slökkviliðsmanna
Nám eldvarnaeftirlitsmanna
Endurmenntun

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika