Markmið sjúkraþjálfunar er að efla og viðhalda heilsu, færni og starfshæfni og stuðla þannig að virkri þátttöku og bættum lífsgæðum fólks á öllum æviskeiðum.   Starfið miðar að því að bæta hreyfigetu, greina orsakir hreyfitruflana og færniskerðinga og veita meðferð sem byggir á greiningunni. Auk þess fást sjúkraþjálfarar við að fyrirbyggja og/eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma, öldrunar og lífsstíls sem geta haft áhrif á hreyfigetu og þar með á lífsgæði einstaklinga. Sjúkraþjálfarar eru löggild heilbrigðisstétt.

Sjúkraþjálfarar starfa jafnt á heilbrigðisstofnunum sem á einkareknum sjúkraþjálfunarstofum. Starfsvettvangur er meðal annars sjúkrahús, endurhæfingarstofnanir, öldrunarstofnanir og líkamsræktarstöðvar. Einnig starfa sjúkraþjálfarar hjá íþróttafélögum, við kennslu og rannsóknir, vinnuvernd og ráðgjöf, svo sem á sviði forvarna og heilsueflingar.

Helstu verkefni

- endurhæfing eftir sjúkdóma, slys og aðgerðir
- þjálfun og meðferð íþróttafólks
- meðhöndlun langveikra, fatlaðra og aldraðra
- stoðkerfisvandamál
- lífstílssjúkdómar
- forvarnir, fræðsla og heilsuefling

Hæfnikröfur

Sjúkraþjálfarar þurfa starfsleyfi frá landlækni. Sérfræðileyfi eru veitt á þrettán sérsviðum að uppfylltum viðbótarkröfum. Sjúkraþjálfari þarf að geta borið ábyrgð á þeim forvörnum, ráðgjöf, greiningu og meðferð sem veitt er. Í starfi sjúkraþjálfara er mikilvægt að þekkja siðareglur stéttarinnar, virða faglegar takmarkanir sem og þagnarskyldu þegar við á.

Félag sjúkraþjálfara

Námið

Sjúkraþjálfun er kennd innan læknadeildar Háskóla Íslands og eru nemendur teknir inn í námið að undangengnum inntökuprófum.

 Til BS-gráðu í sjúkraþjálfunarfræðum þarf að ljúka þriggja ára grunnnámi og tveimur árum til viðbótar til meistaraprófs og er þá hægt að sækja um starfsleyfi auk þess sem MS-gráða uppfyllir grunnkröfur fyrir doktorsnám.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika