Sjúkranuddarar meðhöndla mjúkvefi líkamans; vöðva, sinar, liðbönd, húð og himnur. Markmiðið er að lina verki og óþægindi sem stafað geta af streitu, misbeitingu, álagseinkennum, meiðslum, sjúkdómum eða áverkum. Í starfi sínu beitir sjúkranuddari svokölluðu „sænsku nuddi“ en einnig öðrum aðferðum svo sem teygjum og styrkjandi æfingum, bandvefsnuddi, vatnsmeðferðum, heitum og köldum bökstrum og bjúgmeðferð. Sjúkranudd er löggild heilbrigðisstarfsgrein.

Sjúkranuddarar stafa ýmist á einkastofum, heilsugæslustöðvum, heilsuræktarstöðvum eða opinberum heilbrigðisstofnunum og sérhæfa sig á ýmsum sviðum svo sem í bjúgmeðferð, íþróttameiðslum, ungbarna-, fæðingar- eða meðgöngunuddi svo eitthvað sé nefnt.

Helstu verkefni

- fyrirbyggjandi nudd- og slökunarmeðferðir
- hefðbundið sjúkranudd og triggerpunktameðferð
- sogæðanudd
- þjálfun og vöðvateygjur
- fræðsla og ráðgjöf um forvarnir, líkamsbeitingu og almenna heilsueflingu

Hæfnikröfur

Sjúkranuddarar fá starfsleyfi frá landlækni og þurfa að hafa lokið námi í sjúkranuddi frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi. Sjúkranuddari þarf að geta borið ábyrgð á þeirri meðferð sem veitt er auk þess sem mikilvægt er að virða þagnarskyldu og faglegar takmarkanir.

Sjúkranuddarafélag Íslands

Námið

Ekki er hægt að læra sjúkranudd í íslenska skólakerfinu en um er að ræða tveggja til þriggja ára nám á háskólastigi erlendis. Sækja þarf námið til viðurkenndra skóla í Þýskalandi og Kanada.

Námið byggist meðal annars á líffærafræði, sjúkdómafræði, hreyfingarfræði, meinafræði, siðfræði og taugafræði. Einnig æfingum, kennslu í skoðun og mati á líkamlegu ástandi sjúklings, vatnsmeðferðum og sérhæfðum sjúkranuddaðferðum.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika