Sjóntækjafræðingar gera mat og mælingar á sjónlagi, til dæmis vegna sjónskekkju, ásamt því að vinna og selja gleraugu og snertilinsur samkvæmt mælingum þeirra eða tilvísun frá augnlækni. Sjóntækjafræðingar eru löggilt heilbrigðisstétt.

Í starfi sem sjóntækjafræðingur gætirðu starfað í gleraugnaverslun og unnið þar jöfnum höndum við afgreiðslu, ráðgjöf og viðgerðir.

Helstu verkefni

- mæla sjón og skoða hornhimnu og slímhúð í augum
- mæla fyrir linsum, máta þær og kenna rétta notkun og meðferð
- aðstoða við val á gleraugnaumgjörð og tegund sjónglerja
- slípa gler og setja í umgjörð
- viðgerðir og lagfæringar á umgjörðum
- vísa fólki til augnlæknis ef þarf
- veitir almenna fræðslu og gerir þarfagreiningar vegna notkunar sjóntækja

Hæfnikröfur

Sjóntækjafræðingur þarf að hafa færni í að lesa úr og túlka upplýsingar sem byggja á orðalagi úr læknisfræði. Mikilvægt er að hafa auga fyrir smáatriðum, geta sýnt nákvæmni í starfi og öguð vinnubrögð. Þjónustulund og skipulagshæfileikar eru æskilegir og gott að hafa áhuga á litasamsetningu og tískustraumum.

Sjóntækjafræðingar fá starfsleyfi frá Landlækni og þurfa að hafa lokið viðurkenndu þriggja ára námi frá skóla á háskólastigi. Sjóntækjafræðingur þarf að þekkja þær faglegu takmarkanir sem gilda um rétt til sjónmælinga auk þess að virða þagnarskyldu þegar við á.

Námið

Sjóntækjafræði er ekki kennd á Íslandi.

Heilbrigðisráðuneytið veitir leyfisbréf eftir umsögn landlæknis, prófessors í augnlækningum og Félags íslenskra sjóntækjafræðinga en ljúka þarf 3 – 4 ára námi frá viðurkenndum háskóla erlendis. Hafa flestir íslenskir sjóntækjafræðingar sótt slíkt nám til Norðurlandanna.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika