Rafveituvirki starfar við lagningu og viðgerðir flutnings- og dreifikerfa raforku. Unnið er við háspennuvirki og lagningu háspennulagna, rekstur og viðhald háspennulína, oft við krefjandi aðstæður fjarri byggð. Rafveituvirki hefur haldgóða þekkingu á rafbúnaði rafvéla og stýribúnaði sem snertir rafveitukerfi. Rafveituvirkjun er lögvernduð iðngrein.

Sem rafveituvirki vinnurðu gjarnan úti við, að eftirliti og viðgerðum með viðeigandi mælitækjum og handverkfærum.

Helstu verkefni

- viðhalda veitukerfum; gera við bilaða strengi, strekkja á loftlínum og afísa
- reisa háspennustaura og strengja línur á milli
- grafa strengi í jörð
- setja upp dreifispenna, aðveitu- og spennistöðvar og stýris- og öryggisbúnað
- mæla viðnám í raforkuveri, aðveitustöð, spennistöð eða línulagningu

Hæfnikröfur

Rafveituvirki þarf að þekkja vel til rafbúnaðar, rafvéla, iðntölvustýringa og stýribúnaðar rafveitukerfa, geta lesið hönnunarteikningar, framkvæmt einfalda bilanaleit og viðhaldið rafbúnaði og útskýrt virkni hans.

Í starfi rafveituvirkja er mikilvægt að þekkja vel til öryggismála í faginu, geta brugðist við rafmagnsslysum og huga að umhverfismálum og viðeigandi umgengni við landið.

Rafmennt

Námið

Rafveituvirkjun er kennd við Tækniskólann en tveggja ára grunnnám rafiðna er einnig í boði við marga framhaldsskóla. Meðalnámstími í rafveituvirkjun er tvær annir að loknu rafvirkjanámi auk  starfsþjálfunar.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika