Mjólkurfræðingar vinna við úrvinnslu mjólkur og framleiðslu tengdra afurða auk þess að sinna rannsóknum og vöruþróun.

Í starfi mjólkurfræðings eru mjólkurbú og afurðavinnslustöðvar líklegir vinnustaðir en einnig starfa mjólkurfræðingar annars staðar í matvælaiðnaði svo sem í ölgerðum og sælgætisverksmiðjum.

Jafnframt starfa mjólkurfræðingar hér á landi við hreinlætisiðnað, lyfjaframleiðslu og í eftirlitsstofnunum eins og við heilbrigðiseftirlit.

Helstu verkefni

- mjólkureftirlit og ráðgjöf í sveitum landsins
- leiðbeina við meðhöndlun hráefna í mjólkurvinnslu
- taka á móti mjólk, meta gæði hennar og hafa umsjón með flutningi
- stýra tölvubúnaði sem gerilsneyðir, fitusprengir, skilur og hreinsar mjólk
- búa til mjólkurvörur svo sem skyr, osta, jógúrt, súrmjólk og ís
- gæðaeftirlit og umsjón með pökkun, frágangi og dreifingu

Hæfnikröfur

Mjólkurfræðingur þarf að þekkja eiginleika þeirra hráefna sem notuð eru í faginu og kunna á viðeigandi eftirlits- og framleiðslubúnað sem oft er tölvustýrður. Hreinlæti er stór þáttur í meðhöndlun mjólkurafurða og mikilvægt að þekkja helstu örverur er finnast og/eða geta komist í mjólkur- og matvælavinnslu. Mikilvægt er að geta unnið sjálfstætt og sýnt frumkvæði í starfi auk nokkurrar kunnáttu í erlendum tungumálum.

Mjólkurfræðingafélag Íslands

Námið

Mjólkurfræði er þriggja ára iðnnám, verklegt og bóklegt. Flestir íslenskir mjólkurfræðingar hafa skiplagt nám sitt þannig að verklega námið fer að mestu fram á Íslandi en hið bóklega í KOLD College í Óðinsvéum í Danmörku.

 Hugmynd að námsbraut í mjólkurfræði hefur einnig verið uppi í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika