Sérhæfing garðplöntufræðinga felst í garð- og skógarplöntum þar sem unnið er við ræktun og framleiðslu slíkra plantna, verkstjórn og/eða rekstur plöntustöðva.

Í starfi sem garðplöntufræðingur gætirðu starfað hjá sveitarfélögum við verkstjórn, umhirðu grænna svæða eða skipulagningu beða. Einnig starfa garðplöntufræðingar í garð- og skógarplöntustöðvum og við sölu og ráðgjöf til almennings varðandi val, ræktun og meðferð plantna.

Helstu verkefni

- skipulagning ræktunarsvæða
- fjölga, planta eða flytja plöntur
- áburðargjöf og dagleg umhirða plantna
- sjá um uppskeru og frágang afurða
- stýra umhverfisþáttum í ræktun, svo sem lýsingu, hitastigi, áburðargjöf og vökvun
- leiðbeina um val og meðferð á plöntum

Hæfnikröfur

Garðplöntufræðingur þarf að búa yfir sérþekkingu á plöntutegundum sem henta fyrir íslensk ræktunarskilyrði auk þekkingar á ræktunartækni við ræktun þessara plantna. Mikilvægt er að geta gert ræktunar- umhirðu- og rekstaráætlanir ásamt því að skipuleggja og stýra starfsemi garðyrkjustöðvar. Við vinnuna eru notuð ýmis garðyrkjuáhöld auk sérhæfðari stærri tækja.

Garðyrkjufélag Íslands

Námið

Nám í garðyrkjuframleiðslu er þrjú ár og skiptist í þrjár brautir; garð- og skógarplöntubraut, ylræktarbraut og námsbraut um lífræna ræktun.

Námið er á framhaldsskólastigi og verður frá hausti 2022 kennt á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands en áfram í húsnæði Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi. 

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika