Dyraverðir starfa á veitinga- og skemmtistöðum og hafa þar eftirlit með að farið sé að reglum um afgreiðslutíma, fjölda/aldur gesta og meðferð áfengis. Að auki starfa dyraverðir oft við atburði sem fram fara utan veitingastaða svo sem tónleikahald og útihátíðir.
Í starfinu er samvinna á milli dyravarða afar mikilvæg sem og samvinna og upplýsingagjöf á milli dyravarða, rekstaraðila og lögreglu.

Helstu verkefni

- halda uppi röð og reglu á veitinga- og skemmtistöðum
- sjá til að skipulag biðraðar fyrir utan skemmtistað sé viðunandi
- vísa út gestum sem brjóta gegn settum reglum
- huga að öryggismálum á vinnustað

Hæfnikröfur

Dyraverðir þurfa að hafa samþykki lögreglustjóra til starfa, verða að vera að lámarki 20 ára og mega ekki hafa gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Dyravörður þarf að geta haldið ró sinni undir álagi og eru samskiptahæfni, þjónustulund og útsjónarsemi mikilvægir kostir í starfinu ásamt því að hafa burði til að fást við erfiða og jafnvel ofbeldisfulla einstaklinga.

Námið

Í lögum er heimild til að kveða á um að enginn skuli gegna dyravörslu nema að loknu viðurkenndu námskeiði fyrir dyraverði. Slík námskeið hafa verið haldin á vegum Mímis – símenntunar. Á námskeiðunum er farið yfir atriði sem á reynir við dyravörslu; brunavarnir, ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum, samskipti við lögreglu og hvernig þekkja má merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika