Diplómatar starfa innan utanríkisþjónustu sem fulltrúar Íslands erlendis. Helsta hlutverk þeirra felst í að gæta hagsmuna Íslands og stuðla að góðum tengslum á milli Íslands og annarra ríkja.

Í starfi sem diplómati má reikna með að flytjast á milli landa einhvern tímann á starfsferlinum og er starfið því hentugast fyrir fólk sem líkar að ferðast, ræður við fjölbreytt hversdagslíf og kann vel við að hitta og kynnast nýju fólki.

 Íslenskir diplómatar starfa á 22 sendiskrifstofum í 17 löndum en þar af eru 15 sendiráð. Diplómatískir fulltrúar geta borið starfsheiti á borð við sendiherra, sendifulltrúa, sendierindreka, ræðismann og sendiráðsritara.

Helstu verkefni

- aðstoða íslenska borgara erlendis
- útgáfa pappíra á borð við vegabréfsáritanir
- skýrslugerð fyrir utanríkisráðuneytið um ástandið í viðkomandi landi
- aðstoða íslensk fyrirtæki við að koma sér fyrir í viðkomandi landi
- auðvelda menningarsamskipti Íslands og erlendra ríkja

Hæfnikröfur

Diplómatar þurfa að búa yfir góðri samskiptahæfni og eiga gott með að vera í tengslum við fólk með ólíkan bakgrunn. Góð tungumálakunnátta er mikilvæg, sér í lagi í ensku og helst einnig tungumáli viðkomandi lands. Diplómati er andlit Íslands út á við og þarf því að búa yfir almennum mannkostum á borð við kurteisi og þolinmæði ásamt því að halda ákveðnar starfsvenjur í heiðri.

Þar sem diplómatar eru í samskiptum við fulltrúa annarra ríkja í vinnunni, er einnig nauðsynlegt að þekkja almennt til heimspólitíkur og samfélagsmála, sérstaklega í tengslum við landið sem starfað er í.

Að hluta byggt á Utdanning.no - Diplomat

Námið

Utanríkisráðuneytið auglýsir annars slagið eftir nemum í starfsþjálfun sem tekur um sex mánuði og er markmiðið að gefa ungu fólki færi á að kynnast störfum innan utanríkisþjónustunnar.

Gerðar eru kröfur um B.A./B.S. gráðu eða samsvarandi nám að lágmarki auk þess sem krafist er góðrar kunnáttu í íslensku, ensku og Norðurlandamáli. Ráðuneytið býður einnig upp á sérstakt starfsnám fyrir nemendur í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Sjá nánar hér.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika