Starf blómaskreytis felst í að útbúa alls kyns blómaskreytingar og sjá til þess að framsetning þeirra sé í samræmi við tilefni hverju sinni. Blómaskreytir leiðbeinir viðskiptavinum um val og meðferð á afskornum blómum, pottaplöntum, garðblómum, trjám og runnum.
Sem blómaskreytir gætirðu unnið í blómaverslun eða blómaheildsölu við uppsetningu á vörum, sölu og ráðgjöf til viðskiptavina.

Helstu verkefni

- útbúa blómaskreytingar, svo sem brúðarvendi, borðskreytingar og útfararkransa
- hirða um pottablóm og afskorin blóm
- skreyta kirkjur, samkomustaði eða veisluborð
- aðstoða viðskiptavini við að velja blóm og gjafavöru
- pakka inn og skreyta gjafir fyrir viðskiptavini

Hæfnikröfur

Í starfi blómaskreytis er mikilvægt að hafa víðtæka þekkingu á plöntum og geta meðhöndlað afskorin blóm og annað skreytingaefni í samræmi við þarfir viðkomandi tegunda. Gott er að þekkja til algengustu skaðvalda garð- og pottaplantna, geta unnið sjálfstætt og leiðbeint öðrum í starfi.

Námið

Nám blómaskreytis skiptist í fjórar annir auk verknáms. Námið er á framhaldsskólastigi, og verður frá hausti 2022 kennt á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands en áfram í húsnæði Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika