Bifvélavirkjar starfa við viðgerðir, viðhald og endurbætur á bílum og ökutækjum. Oft er um að ræða sérhæfingu í ákveðnum bifreiðategundum eða vélarhlutum en bifvélavirkjar vinna gjarnan við gangverk bílsins; gírkassa, vél, bremsur, stýri, eða rafbúnað. Bifvélavirkjun er löggilt iðngrein.

Bifvélavirkjar starfa flestir á bifreiðaverkstæðum en einnig við eftirlit hjá fyrirtækjum og skoðunarstöðvum og í verslunum sem selja ökutæki eða varahluti.

Helstu verkefni

- taka á móti ökutækjum sem þarfnast viðgerðar eða eftirlits
- prófanir á ökutækjum, bilanaleit og mat
- gera við og endurgera vél eða vélarhluta
- reglubundið eftirlit
- viðhald svo sem að stilla, smyrja og hreinsa

Hæfnikröfur

Sem bifvélavirki þarftu að geta unnið sjálfstætt og skipulega við að meta, greina og lagfæra algengustu bilanir í bílum. Mikilvægt er að þekkja til laga og reglugerða í umferðarmálum og geta ráðlagt viðskiptavinum út frá þörfum þeirra og óskum meðal annars hvað varðar kostnað og verktíma. Í starfi bifvélavirkja eru sérhæfð tölvustýrð tæki mikið notuð við vinnuna.

Námið

Bifvélavirkjun er kennd við Borgarholtsskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri.  Þá var námið um tíma í boði við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.Tveggja anna grunndeildir í málmsmíðum og véltækni má að auki finna víða. Nám bifvélavirkja tekur um þrjú og hálft ár.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika