Tæknifræði er grunnnám á háskólastigi. Í náminu er farið í grunnfög tæknifræðinnar; meðal annars eðlisfræði, stærðfræði, teikningu, hönnun og forritun. Hægt er að sérhæfa sig á hinum ýmsu sviðum tæknifræði – sjá nánar í námsskipulagi. Námið veitir rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.

Náminu lýkur með BS/BSc prófi. Námstími er þrjú og hálft ár.

Kröfur

Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt próf. Einnig eru teknir inn nemendur sem hafa 4. stigs próf af vélstjórnarbraut. Mælt er með því að nemandi ljúki tilteknum einingafjölda í stærðfræði og eðlisfræði. Þau sem ekki uppfylla inntökuskilyrðin geta tekið undirbúningsnám hjá Háskólanum í Reykjavík eða Háskólabrú Keilis.

Námið er lánshæft til framfærslu og skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Námið byggist að mestu leyti á skyldufögum og er að jafnaði kennt í staðnámi. Athugið að mögulega gæti námið eða hluti þess verið kennt í fjarnámi.
Í Háskóla Íslands er um tvær námsleiðir að ræða; 90 eininga grunndiplómu og  nám til BS gráðu.

Háskólinn í Reykjavík býður þrjár námslínur og sérhæfingu:

Byggingatæknifræði (burðarvirki, framkvæmdir eða lagnir)
Rafmagnstæknifræði (sterkstraumur eða veikstraumur)
Orku- og véltæknifræði (orkutækni eða véltækni)

Þá er grunnnám í iðnaðar- og orkutæknifræði í boði við Háskólann á Akureyri.

Kennsla

Tæknifræði (BS) á vegum Háskóla Íslands.

Tæknifræði (BSc) við Iðn og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík.

Iðnaðar- og orkutæknifræði við Háskólann á Akureyri.

Að loknu námi

Að loknu þriggja og hálfs árs námi er hægt að sækja um leyfi fyrir starfsheitinu tæknifræðingur. Möguleiki er að fara í framhaldsnám í tæknifræði eða skyldum greinum.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika