Hæfniþrep: 2
Jarðvirkjun picture

Jarðvirkjun er fjögurra anna nám á framhaldsskólastigi sem tengist vinnu jarðverktaka við landmótun, efnisflutninga, jarðlagnavinnu, yfirborðsfrágang og sambærileg verk.

Í náminu er fjallað um jarðvinnslu, verkferla, fagleg vinnubrögð og öryggismál sem tengjast fjölbreyttum störfum á sviði mannvirkjagerðar og er námið bæði hugsað fyrir þau sem eru þegar starfandi eða hyggja á slík störf.

Mikil áhersla er lögð á nýjustu tækni og er talsverð verkleg kennsla með aðstoð tölvuherma auk starfsþjálfunar sem fram fer í samvinnu við jarðvinnuverktaka.

Kröfur

Umsækjendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla en einungis er innritað á haustönn. Nemendur yngri en 18 ára taka  almennar grunnnámsgreinar ásamt fagnámi eftir því sem við á auk þess sem hægt er að velja fagáfanga á sviði málm-, raf- eða véltækni.

Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Nám í jarðvirkjun er  hvort tveggja bóklegt og verklegt en áhersla á að verkefni séu  hagnýt, einstaklingsmiðuð og í takti við þarfir atvinnulífsins varðandi umgengni við vélar, merkingar, stjórnun á vinnusvæðum og landmótun.

Kennsla

Jarðvirkjun er kennd  í Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins.

Að loknu námi

Ekki er um að ræða löggilta iðngrein en námið er góður undirbúningur fyrir fjölbreytt störf í mannvirkjagerð auk þess sem nemendur fá vinnuvélaréttindi, réttindi í merkingu vinnusvæða og skyndihjálpar­skírteini.

Einnig er hægt að ljúka viðbótarnámi til stúdentsprófs.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika