Nám á hestabraut er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Í því er farið í grunnþætti hestamennsku og eru nemendur undirbúnir fyrir hvers konar hestatengda starfsemi, svo sem á hestabúgörðum, við hestatengda ferðaþjónustu eða hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Eftir námið eiga nemendur að geta sinnt helstu verkþáttum í hirðingu hesta og aðstoðað við þjálfun þeirra. Einnig aðstoðað viðskiptavini í hestaferðum hjá hestatengdum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Raunfærnimat hefur farið fram í greininni þar sem færni af vinnumarkaði er metin.

Meðalnámstími er um þrjú ár að meðtalinni 12 vikna starfsþjálfun.

Kröfur

Umsækjendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla. Athugaðu hvort námið gæti verið lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms, fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Námið skiptist í almennar greinar, sérgreinar brautarinnar og starfsþjálfun. Starfsþjálfunin fer fram á sumrin í lok fyrsta og annars árs. Athugaðu að námið eða hluti þess gæti verið kennt í fjarnámi.

Kennsla

Nám á hestabrautum hefur verið kennt við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra auk hestakjörsviðs á opinni stúdentsbraut Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.

Einnig hefur verið boðið upp á styttra nám til að auka eigin færni í ferðaþjónustu hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum þar sem fá má nánari upplýsingar.

Á háskólastigi er nám í hestafræði til BS - gráðu, bæði við Landbúnaðarháskólann og Háskólann á Hólum.

Að loknu námi

Möguleiki er að vinna við ýmis störf tengdum hestum og ferðaþjónustu. Eins er hægt að fá hluta námsins metinn fyrir nám til stúdentsprófs af bóknámsbraut.

Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika